Google Apps for Education

image_pdfimage_print

Google Apps for Education er í raun gmail pósturinn ásamt öllu sem honum fylgir en á léni skólans (t.d. @krummi.is). Í Google Apps er öflugur póstþjónn sem geymdur er í skýjunum en í viðbót við tölvupóstinn hefur hver notandi aðgang að vönduðum vefforritum s.s. Google Drive með ritvinnslukerfi, töflureikni, ásamt glærugerðartóli, heimasíðukerfi og ýmsu fleiru. Ekki má gleyma Google Calendar sem er gríðarlega öflugt skipulagstól. Hægt er að samnýta dagatöl í Google Calendar með öðrum og birta á heimasíður.

Ritvinnsluskjöl, töflureiknar og skyggnutól sem eru til staðar í Google Apps geta að miklu leyti leyst af hólmi hefðbundinn Microsoft Office pakka. Að auki er einn stærsti kostur þess að taka upp Google Apps sá að margir geta unnið í sama skjali á sama tíma. Allir sjá breytingar hvers annars og allt gerist á rauntíma. Allar breytingar í skjölunum vistast um leið og þær eru gerðar þannig að enginn texti glatast í Google Apps.

Öll ofangreind þjónusta fer fram í gegnum netið og því þarf engin forrit nema vafra til þess að nýta hana.

Hver notandi sem skólinn stofnar (starfsfólk/nemendur) fær 30 GB geymslurými sem verður að teljast nokkuð rausnarlegt. Að auki eru ýmsar undanþágur frá geymslurými Google. Myndir sem eru stærri en 2048×2048 pixlar taka upp geymslurými en myndir undir þeirri stærð taka ekkert pláss. Það sem þú býrð til í Google Drive eða skjöl sem þú breytir í Google Drive skjöl taka ekki af geymslurýminu og skiptir þá engu með fjölda mynda í skjölunum. Hægt er að geyma skrár sem hver um sig er allt að 10 GB.

Öll þessi þjónusta er ókeypis fyrir skóla. Ef skólar halda úti sínu eigin póstkerfi eða greiða fyrir slíka þjónustu er hægt að spara stórfé með því að færa sig yfir í Google Apps.

Hans Rúnar Snorrason
Kennari og tölvuumsjónarmaður við Hrafnagilsskóla.

Hér fyrir neðan getur þú séð myndbandsupptöku frá fyrirlestri sem Hans Rúnar hélt á ráðstefnu 3f félags um upplýsingatækni og menntun „Í skýjunum“.

Comments are closed.

Scroll To Top