Nýsköpun í námi – ratleikir í skólastarfi

Á UT-menntabúðum I kynnti Steinunn Anna Gunnlaugsdóttir, framkvæmdastjóri Locaitfy, TurfHunt ratleiki í snjallsíma.

Ratleikir hafa löngum verið stundaðir þar sem þátttakendur leysa úr þrautum og keppa að því að vera fyrstir að ná settu marki. Með tilkomu snjallsíma er hægt að búa til ratleiki útfrá staðsetningarhnitum og nota skjá símans sem verkefnaborð en fyrirtækið Locatify hefur búið til ratleikjaforritið TurfHunt og vefsíðu þar sem ratleikir eru hannaðir.

Ratleikirnir eru einstakir, þeir eru fjölspilaleikir sem leiknir eru utandyra til skemmtunar, fræðslu og hópeflis. Í þeim er verið að kanna svæði, kynnast staðháttum og menningu út á landi eða í borgum, um er að ræða nýja leið til fræðast og leika sér á sama tíma.

Hugmynd um hefðbundna fjársjóðsleiki er útfærð með nýrri tækni þar sem samskipti spilara, ögrandi þrautir og sýndargull spila stóran þátt. Nýjungin er meðal annars fólgin í því að keppendur geta séð staðsetningu sína og hinna liðanna á skjá símans. Um leið er hægt að fylgjast með liðunum af vefsíðu þannig að þeir sem ekki taka beinan þátt geta verið áhorfendur. Einnig er hægt að skrá eitt lið til keppni.

Almennt um ratleikjakerfið
Leikirnir er spilaðir í fjölspilakerfi og símarnir eru nettengdir. Þetta eru keppnisleikir út á örkinni þar sem leikendur fá ábendingar, þrautir til að leysa og spurningar til að svara. Staðsetning hrindir af stað viðeigandi verkefnum á réttum stöðum.

Á á vefsíðu Locatify er hægt að búa til ratleiki á einfaldan og skilvirkan hátt. Þar er hægt að setja saman leik með kortum, hljóðskrám, myndum, myndböndum, staðsetningarhnitum, spurningum og sýndargulli. Leikirnir eru búnir til af kennurum og nemendum sem setja sig í spor leikjahönnuða. Nemendur hafa aðgang að eigin gagnabanka en kennarar geta deilt sínum gögnum og jafnframt séð stöðu nemenda í leik.

Nemendur og kennarar geta hannað sína eigin leiki útfrá námsefninu. Með ratleikjum í síma er skapað nýtt form sem kennarar og nemendur, undir handleiðslu kennara, geta útbúið leiki í hinum ýmsu fögum sem taka mið af umhverfinu. Hægt er að nota það til sögukennslu, kennslu í umhverfisvísindum, líffræði, landafræði, stærðfræði, fornleifafræði, listum, íþróttum og fleiri fögum. Leikirnir geta verið búnir til á ýmsum tungumálum.

Um leið og unnið er með þessi ákveðnu fög er verið að ýta undir sköpunargáfu og þróa ýmsa hæfileika sem eru mikilvægir í hópavinnu eins og t.d. samskiptahæfni, leiðtogahæfileika og fjölhæfni við lausn vandamála. Um leið er verið að stuðla að sterkari sjálfsmynd, eins og t.d. hjá þeirra sem eiga við lestrarerfiðleika að stríða en geta nýtt hæfileika sína á annan hátt utan skólastofunnar.

Gamla máltækið, það er leikur að læra á hér vel við en með því að upplifa og breyta aðstæðum eiga nemendur oft auðveldara með að muna námsefnið en þegar hefðbundari lærdómsaðferðum er beitt. Þetta á bæði við nemendur í skólum og þátttakendur í fullorðinsfræðslu.

Scroll To Top