Á meðan flestir kennarar nutu sumarfrísins með fjölskyldu og vinum skelltu aðrir sér á tölvunámskeið á Kýpur. Var það tilkomið vegna Erasmus+ áætlunar Evrópusambandsins. Ný samstarfsáætlun Evrópusambandsins Erasmus+ sameinar mennta-, æskulýðs- og íþróttamál undir einn hatt. Áætlunin hófst þann 1. janúar 2014 og stendur yfir í sjö ár. Á því tímabili renna tæplega 15 milljarðar evra til fjölbreyttra verkefna sem eiga að efla menntun, þjálfun, æskulýðsstarf og íþróttaiðkun almennings í Evrópu. Markmið Erasmus+ er tvíþætt. Að styðja við verkefni sem miða að því að auka færni og hæfni einstaklinga til að takast á við störf framtíðarinnar, og að tryggja nútímavæðingu mennta- og æskulýðskerfa innan þátttökulandanna 34 sem taka þátt í Erasmus+.
Áður gátu einstaklingar sótt um styrki en nú geta einungis lögaðilar (stofnanir) sótt um í menntahluta Erasmus+. Fjórir íslenskir kennarar sóttu námskeiðið sem haldið var í borginni Paphos á Kýpur, Svava Björk Ásgeirsdóttir og Sigríður Ásdís Erlingsdóttir, grunnskólakennarar úr Krikaskóla í Mosfellsbæ og Helena Valtýsdóttir og Anna Bjarnadóttir framhaldsskólakennarar úr Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi. Krikaskóli og Fjölbrautaskóli Vesturlands voru sem sé á meðal þeirra stofnana sem fengu styrk til verkefna að þessu sinni.
Námskeiðið nefndist „Web 2.0 tools for effective teaching and project work“ og var á vegum Teachers Training Institute í Tarnobrzeg í Póllandi. Tveir pólskir kennarar, Adam Stepinski og Boguslaw Lubanski, skipulögðu og sáu um kennsluna á námskeiðinu sem haldið var í húsakynnum International School of Paphos dagana 20.-29. júlí 2014. Kennslustofan var vel búin fartölvum og vel loftkæld, enda 36 stiga hiti úti og 80% raki. Námskeiðið hófst með „welcome dinner“ þar sem hópurinn kom saman á kýpverskum veitingastað og boðið var upp á „meze“ sem eru fjölbreyttir smáréttir. Þátttakendur gistu flestir á sama hótelinu og á hverjum morgni kom „skólabíll“ og sótti okkur og keyrði okkur í og úr skóla. Við fórum einnig saman í nokkrar skoðunarferðir með fararstjóra um Paphos og nágrenni og var það mjög skemmtilegt.
Námskeiðið, sem var 40 stundir, var skipulagt með það í huga að auka færni og þekkingu kennara á ýmsum forritum sem í boði eru á internetinu (einungis var farið yfir forrit sem styðjast við pc tölvur). Markmiðið var að kennarar fengju þekkingu og færni í þessum forritum til þess nota í kennslu sinni með börnum og unglingum sem og við skipulagningu starfs síns sem kennarar. Einnig var markmiðið að þátttakendur námskeiðsins mynduðu tengsl við aðra kennara í Evrópu og fengju innsýn inn í heim e-Twinning sem vissulega býður upp á margvísleg tækifæri fyrir kennara og nemendur til samstarfs og samskipta.
Á námskeiðinu var farið yfir viðamikið efni á stuttum tíma, en tíminn var mjög vel nýttur og góður tími gefinn fyrir þátttakendur að spreyta sig á þeim tólum sem verið var að kynna hverju sinni. Það sem farið var yfir var t.d. að blogga, að gera kannanir/próf, að búa til plaköt og tímarit á vefnum, að búa til teiknimyndasögur og persónur (avatars) og ljá þeim rödd, að setja texta við myndbönd, myndaforrit ýmis konar, að búa til tímalínu, e- bækur, kynningar og margt fleira. Í lok námskeiðsins voru þátttakendur með kynningar fyrir hópinn, þar sem fram kom aukin færni þeirra í því sem þeir lærðu á námskeiðinu. Sjá padletborð með yfirliti yfir verkfærin sem kennd voru á námskeiðinu.
Það var frábært og mjög lærdómsríkt að fá að taka þátt í þessu námskeiði og voru þátttakendur sammála um að það muni nýtast þeim í kennslu sem og til einkanota. Við kynntumst frábæru fólki frá Eistlandi, Þýskalandi, Póllandi, Svíþjóð, Finnlandi og Frakklandi og munum vonandi koma til með að vinna e-Twinning verkefni með þeim í framtíðinni. Auk þess vakti litla Ísland mikla athygli hjá þátttakendum hópsins og mikið spurt og spekulerað um land okkar og þjóð.
Við hvetjum alla til að kynna sér það sem Erasmus+ áætlunin hefur upp á að bjóða sem og e-Twinning. Þar eru mörg tækifæri fyrir kennara og nemendur til skemmtilegs samstarfs.
Svava Björk Ásgeirsdóttir og Sigríður Ásdís Erlingsdóttir,
grunnskólakennarar í Krikaskóla, Mosfellsbæ.
Myndirnar hér fyrir neðan voru teknar á námskeiðstímanum