Makey Makey í Kelduskóla

image_pdfimage_print

Tónmenntakennsla

Í vettvangsnámi við Kelduskóla á yfirstandandi vormisseri urðum við kennaranemarnir (Andri Bjartur Jakobsson og Guðmann Sveinsson) þess heiðurs aðnjótandi að komast í tæri við MaKey MaKey uppfinninga búnaðinn. Starfsmaður við skólann, Rakel G. Magnúsdóttir, átti veg og vanda að því að kynna okkur fyrir þessu frábæra og fjölnota tæki. Kom því ekkert annað til greina en að nýta það til kennslu í vettvangsnáminu þó svo að aðrir hlutir hefðu verið skipulagðir samkvæmt kennsluáætlun, þetta var of spennandi tækifæri til að sleppa því!

Við kennaranemarnir ásamt leiðsagnarkennara okkar honum Svani Bjarka Úlfarssyni, settum búnaðinn upp og unnum verkefni með nemendum í 1. – 5.bekk.

En hvað er MaKey MaKey? makey

MaKey MaKey er einfaldur uppfinningabúnaður fyrir alla, börn jafnt sem fullorðna til að vinna með sköpun, listir, verkfræði og allt þar á milli. Búnaðurinn er hannaður af tveimur nemendum við MIT háskólann í Bandaríkjunum, sem trúa að allir séu frumlegir, skapandi og hugmyndaríkir. En þetta eru einmitt þeir þættir sem notkun MaKey MaKey kallar fram í hverjum þeim sem notar búnaðinn. Möguleikarnir eru nánast endalausir og takmarkast eingöngu við okkar eigið ímyndunarafl!

Hvað gerðum við með MaKey MaKey? tonmennt keldu

Þar sem við erum að sérhæfa okkur í tónmenntakennslu þá lá beinast við að hugsa notkun búnaðarins út frá þeim forsendum í kennslu. Okkur langaði til þess að kynna búnaðinn og notkunarmöguleika hans á sama tíma og verið væri að nýta hann á skapandi hátt með nemendum. Við ákváðum að notast við laglínur úr þekktum einföldum lögum eins og t.d. Mæja átti lítið lamb og Góða mamma. Flestir ef ekki allir krakkar hafa einhvern tímann heyrt þessi lög og þannig fannst okkur því tilvalið að hafa þau í forgrunni þar sem við vorum að vinna með búnaðinn í fyrsta skipti. En þegar fram líða stundir er ákjósanlegt að okkar mati að fara yfir í aðeins flóknari lög en það veltur vissulega á aldri og getustigi nemenda hverju sinni.

Við ákváðum að nýta okkur leir og ávexti sem hljóðgjafa og tengja svo við forrit sem framkallar píanóhljóð (fleiri hljóðfæri á boðstólum endurgjaldslaust í gegnum slóðina http://makeymakey.com/howto.php). Ástæða þess að leirinn varð fyrir valinu er sá að hann leiðir einstaklega vel en leiðni er sá þáttur sem skiptir hvað mestu máli við notkun búnaðarins, til þess að framkalla hljóð. Einnig nýttum við okkur appelsínur og perur við gerð verkefnisins en leirinn leiðir þó mun betur og er að okkar mati hvað hentugastur til notkunar með MaKey MaKey.

Við útbjuggum þrjár nótur úr leir en þessar nótur jafngiltu nótunum C-D-E á píanóinu. Sú hugmynd kom svo upp að nýta grafíska nótnaskrift (einnig úr leir) til þess að leiðbeina nemendum við að spila laglínurnar. Nóturnar voru búnar til úr sama leir og píanóið var gert. Mismunandi litur var á hverri nótu t.d. var C nótan úr grænum leir og D nótan úr bláum o.s.frv. Þannig var auðvelt að útbúa nóturnar á töfluna og nemendur áttu mjög auðvelt að lesa út úr og nýta sér grafísku nótnaskriftina.

Að lokum:godamamma makey

Notkun MaKey MaKey er að okkar mati frábær leið til að kynna möguleikana við sköpun og tónlistarflutning á öðruvísi og spennandi hátt. Hljóðfæri eru ekki nauðsynleg í þeim skilningi, heldur er svo margt annað krefjandi og frumlegt hægt að gera, ef horft er aðeins út fyrir kassann endrum og sinnum.

Eitt af því sem við gerðum til þess að virkja alla nemendur samtímis í þeim tímum sem búnaðurinn var notaður, var að búa til stóra keðju þar sem allir nemendur bekkjarins héldust í hendur og leiddu jörðina sín á milli í hring. Ef keðjan virkaði ekki sem skildi kom ekkert hljóð er slegið var á leir píanóið en hljóð framkallaðist ef keðjan hélst heil. Þetta var frábær æfing sem gerði alla nemendur að virkum þátttakendum í æfingunni og sýndi fram á mikilvægi þess að allir þurfa að taka þátt í keðjunni svo leiðnin næði alla leið á leiðarenda.

Okkur gafst því miður ekki tími til þess að prófa fleiri kennsluæfingar með nemendum en vonandi gefst okkur tækifæri í náinni framtíð til þess að nýta búnaðinn til enn meiri sköpunar í tónmennt. Það mátti greinilega sjá á nemendum að þeim fannst búnaðurinn alveg jafn spennandi okkur. Kennslan varð því virkilega gefandi, áhugaverð, skapandi og skildi að okkar viti helling eftir sig. Við hvetjum að sjálfsögðu alla kennara sem og aðra sem hafa áhuga á sköpun, nýjungum og öðruvísi verkfærum í kennslu að kynna sér MaKey MaKey.

Þó svo að við hefðum að gefnum ástæðum nýtt okkur búnaðinn eingöngu til tónmenntakennslu, þá er það síður en svo eina kennslugreinin sem getur nýtt sér búnaðinn. Samþætting á milli námsgreina er eitthvað sem kemur strax upp í hugann þegar hugsað er um notkunarmöguleika búnaðarins. Eins og áður kom fram þá er ímyndunaraflið það eina sem getur takmarkað okkur við notkun búnaðarins og af þeim ástæðum er tilvalið að nýta sér sköpunargáfu og frjótt ímyndunarafl nemenda eins og kostur er við notkun hans.

Hægt er að nálgast allar upplýsingar varðandi búnaðinn í gegnum slóðina http://makeymakey.com/ þ.m.t. leiðbeiningar við uppsetningu, kennslumyndbönd og hugmyndir að verkefnum sem skemmtilegt væri að framkvæma.

Guðmann Sveinsson

Myndskeiðið hér fyrir neðan var tekið á meðan vettvangsnáminu stóð.

Comments are closed.

Scroll To Top