Spjaldtölvur í kennslu með börnum með einhverfu

image_pdfimage_print

Veturinn 2012 – 2013 ákváðum við í Brekkuskóla að kynna okkur á hvern hátt spjaldtölvur gætu nýst í kennslu með nemendum með einhverfu. Skólinn var áður búinn að fjárfesta í spjaldtölvum fyrir sérkennara. Við notkun á þeim sáum við ýmsa möguleika til að auðvelda skipulag fyrir nemendur og til að auka sjálfstæði þeirra. Ákveðið var að hefja þróunarverkefni varðandi notkun á spjaldtölvum í námi og daglegu lífi með nemendum með einhverfu. Brekkuskóli sótti um styrk til samfélagsverkefna frá Norðurorku sem við fengum. Styrkurinn var notaður til að kaupa fjórar spjaldtölvur til notkunar fyrir nemendur og til að sækja námskeið fyrir kennara sem haldið var á vorönn 2013. Vinna með nemendum hófst haustið 2013.

Öryggi og sjálfstæði er mikilvægt
Ýmsir þættir t.d. breytingar, nýjar aðstæður og yfirsýn yfir skipulag, valda nemendum með einhverfu kvíða og óöryggi. Markmiðið þróunarverkefnisins er að styðja þá í að átta sig á aðstæðum og finna leiðir til að verða öruggari og sjálfstæðari. Fyrsta vetur verkefnisins höfum við lagt áherslu á að nemendur læri að nota spjaldtölvur bæði til skipurlags, upplýsingaöflunar og verkefnavinnu. Vinnan hefur verið einstaklingsmiðuð eftir þörfum nemendanna. Með því að nota spjaldtölvur verður skipulagið sjónrænt sem hentar nemendum með einhverfu mjög vel. Auðvelt er að endurskoða og bæta við skipulagið í tækinu jafnóðum og eftir þörfum. Við höfum notað m.a. dagatal, minnismiða, áminningu og tímavaka. Einnig er hægt að ná í smáforit fyrir dagsskipulag sem eru misjafnlega myndræn og hægt er að aðlaga að þörfum nemenda. Önnur markmið með notkun á spjaldtölvum hefur t.d. verið að þjálfa fínhreyfingar, hlustun og ritun sem og færniþætti í stærðfræði og tungumálum.

Spjaldtölvur styrkja skýrt skipulag og nám
Með því að nota ritvinnslu hafa nemendur getað skráð ýmsar upplýsingar og unnið verkefni. Einnig hefur ritvinnslan nýst vel til að setja inn eða vinna félagsfærnisögur með nemendum. Það hefur reynst vel að hafa alla þætti tengda skipulagi og upplýsingaleit á einum stað en ekki á blöðum sem hættir til að týnast. Nemendur hafa oft not fyrir félagsfærnisögur og minnisatriði endurtekið, þegar svipaðar aðstæður/atburðir eiga sér stað. Spjaldtölvunotkunin gefur nemendum kost á að bæta við upplýsingum, færa til og breyta í skipulaginu. Fyrir utan kosti við skipulag og að styðja nemendur í að auka sjálfstæði sitt höfum við séð ánægjulegar breytingar á vinnulagi nemenda þar sem vinnan í spjaldtölvunum hefur létt á færniþáttum sem hafa reynst þeim erfiðir. Má þar nefna nemendur sem hafa átt erfitt með ritun. Eftir að hafa fengið þjálfun í spjaldtölvu og unnið þar með ritvinnslu, fínhreyfileiki og stafainnlögn höfum við séð viðhorf nemenda til skriftarvinnu verða afslappaðra og það leitt til aukinnar vinnu bæði í spjaldtölvunni en einnig á hefðbundinn hátt með blýanti og blaði. Hjá öðrum hefur þessi vinna leitt til aukinnar áherslu á innihald frásagna. Nemendur hafa getað einbeitt sér að skapandi skrifum þannig að textarnir þeirra hafa lengst og orðið fjölbreyttari. Á sama tíma og við höfum unnið með börnum með einhverfu höfum við séð að tækin geta auðveldað og stutt við sjálfstæði og nám fjölbreytts nemendahóps og má þá nefna nemendur með lestrarörðugleika, ADHD og bráðgera nemendur.

Möguleikarnir eru margir
Eftir þetta fyrsta ár höfum við lært mikið, bæði í notkun á spjaldtölvunni, sem og hefur vinnan gefið okkur nýja sýn á margt í færni og möguleikum nemenda okkar. Við erum stöðugt að finna ný smáforrit sem gefa möguleika á að gera vinnuna fjölbreyttari á markvissan hátt. Við höfum nú hafið þessa þróunarvinnu og erum áhugasöm um framhaldið. Að hefja notkun á nýjum aðferðum tekur tíma. Við reynum að vinna á þeim hindrunum sem upp koma með því að fara rólega af stað og læra jafnt og þétt. Við notum þær spjaldtölvur sem við höfum en með fleiri tækjum gætum við unnið meira og með fleiri nemendum. Skipulag, félagsfærnisögur og minnispunktar eru persónulegar upplýsingar sem ekki eiga að vera aðgengilegar öðrum.

Spjaldtölvur eru góð viðbót
Mikilvægt er að kennarar nái að þjálfa sig í notkun á spjaldtölvum og finni hvaða markmiðum þeir vilja ná. Þarfir nemenda þurfa alltaf að vera í fyrirrúmi. Það er okkar að leiða nemendur áfram í notkun á tækninni til þess að þeir verði sjálfstæðari í sínu daglega lífi. Notkun á spjaldtölvum eða öðrum tækjum er engin töfralausn í skólastarfinu en mikilvægt að hafa í huga að tækjanotkunin er góð og gagnleg viðbót við allt annað sem við gerum. Við þökkum Norðurorku kærlega fyrir að hafa veitt Brekkuskóla styrkinn sem gaf okkur tækifæri til að hefja þessa þróunarvinnu. Við sjáum marga möguleika í notkun með spjaldtölvum í skólavinnunni eins og fram hefur komið og hlökkum til að halda áfram í samvinnu við nemendur okkar.

Fyrir hönd Brekkuskóla
Halla Kristín Tulinius, sérkennari
Rósa Mjöll Heimisdóttir, sérkennari.

Comments are closed.

Scroll To Top