Námskeiðið Netið okkar er ókeypis og opið öllum en einkum ætlað skólafólki, foreldrum og öðrum sem koma að uppeldi og menntun ungmenna. Það er sjálfstætt framhald námskeiðsins Netið mitt sem var í boði á vormisseri 2017 en þá var fjallað um borgaravitund og lýðræði, sjálfsmynd og netorðspor, réttindi og ábyrgð, andlega og líkamlega heilsu og vellíðan. Á námskeiðinu Netið okkar verður fjallað um siðareglur og netvenjur, samskipti og sambönd, netöryggi og læsi og samfélagsþátttöku.
Meginmarkmið námskeiðanna beggja er að stuðla að aukinni stafrænni borgaravitund ungmenna, það er að þau verndi og beri virðingu og umhyggju fyrir sjálfum sér og öðrum í stafrænum heimi, stundi örugga netnotkun og nýti miðla og nýja tækni með ábyrgum og skapandi hætti.
Í byrjun námskeiðsins Netið okkar verður staðlota og einnig í lok námskeiðs en að öðru leyti verður það á netinu. Boðið verður upp á nokkrar vefmálstofur í rauntíma sem verða á fimmtudögum kl. 16:15-17:15. Tækifæri verða gefin til umræðu og skoðuð verða verkefni sem tengjast daglegu lífi, uppeldi og kennslu og þátttakendur hvattir til að deila hugmyndum og reynslu um áskoranir og álitamál, námsefni og kennsluhætti.
Smelltu hér til að skrá þátttöku í fyrri staðlotuna þann 14. október.
Skráning fer fram á Moodle-vef námskeiðsins: http://education4site.org/netnam/course/view.php?id=4
Nýir notendur í námskeiðskerfinu eru beðnir um að búa til nýjan reikning. Þegar það hefur verið gert kemur staðfesting í tölvupósti með tengli sem þarf að smella á. Að því loknu er þér boðið að innrita þig í námskeiðið. Hafðu samband við Tryggva Thayer (tbt@hi.is) ef upp koma vandamál í skráningarferlinu.
Smelltu hér til að fá ítarlegri leiðbeiningar um innskráningarferlið.
Upptökur frá vefmálstofum á námskeiðinu Netið mitt, vorið 2017 má finna hér: https://vimeo.com/album/4468667.
Einnig er bent á Facebook hópinn Borgaravitund https://www.facebook.com/groups/borgaravitund/ sem er umræðuvettvangur tengdur námskeiðunum.
Menntavísindasvið og Rannsóknarstofa í upplýsingatækni og miðlun við Háskóla Íslands (HÍ), Heimili og skóli – landssamtök foreldra, Menntamiðja og 3f – félag um upplýsingatækni í menntun standa að námskeiðinu. Styrkir vegna þróunar og kennslu þess hafa verið veittir frá Háskóla Íslands (Kennsluþróunarsjóði), Reykjavíkurborg og úr Endurmenntunarsjóði grunnskóla.
Að námskeiðinu Netið okkar koma kennarar og annað fagfólk á ýmsum sviðum
- Bjarndís Fjóla Jónsdóttir, kennsluráðgjafi í upplýsingatækni á skrifstofu fræðslu- og frístundaþjónustu Hafnarfjarðar
- Guðberg K. Jónsson, verkefnastjóri SAFT
- Hafþór Freyr Líndal, fulltrúi ungmennaráðs SAFT
- Hrefna Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri Heimilis og skóla – landssamtök foreldra
- Ragnheiður Líney Pálsdóttir, kennari í upplýsingatækni í Lindaskóla
- Sigríður Dögg Arnardóttir (Sigga Dögg), kynfræðingur
- Skúlína Kjartansdóttir, aðjúnkt Háskóla Íslands
- Sólveig Jakobsdóttir, dósent við Háskóla Íslands
- Tryggvi Thayer, verkefnisstjóri Menntamiðju
- Vanda Sigurgeirsdóttir, lektor í tómstunda- og félagsmálafræði
- Þórir Ingvarsson, lögreglufulltrúi
- Þröstur Jónasson, gagnasmali