Nokkrir skólar á Eyjafjarðarsvæðinu hafa verið að mynda með sér lærdómssamfélag um notkun upplýsinga- og
samskiptatækni (UST) í skólastarfi. Samstarfið spratt út frá námskeiðinu Samspil 2015 þar sem fulltrúar skóla af öllum skólastigum hittast og læra saman á tæknina. Fjórir skólar í Eyjafirði ákváðu að halda því samstarfi áfram.
Ákveðið var að efna til menntabúða í Brekkuskóla á Akureyri þar sem hugmyndin var forprófuð en síðan sótti hópurinn um styrk úr endurmenntunarsjóði til að halda verkefninu áfram.
Þegar hafa verið haldnar fjórar menntabúðir og öðrum skólum í nágrenninu boðin þátttaka. Til að byrja með mættu 20-30 kennarar en fjöldinn hefur síðan farið stigvaxandi og í síðustu búðunum sem voru þær fjórðu í röðinni, komu um 80 manns. Í menntabúðunum hafa kennarar, nemendur og stjórnendur kynnt hugbúnað og tækni sem þeir hafa verið að prófa sig áfram með í kennslu, við stjórnun skóla og í námi sínu.
Verkefnið hefur lykilatriði lærdómssamfélags að leiðarljósi.
Markmiðið með samstarfinu er að:
– Miðla þekkingu og reynslu á notkun UST í skólastarfi milli skóla á svæðinu og læra hvert af öðru.
– Skapa samstarfsvettvang um málefni UST í skólastarfi.
– Styðja við kennara og skapa aðstæður til að miðla af þekkingu og reynslu til annarra kennara og skólastjórnenda.
– Fá utanaðkomandi aðila sem hafa reynslu og þekkingu í UST til að koma með kynningu á nýjungum í UST í skólastarfi sem lærdómssamfélagið kemur sér saman um að vilja fá sérstaka kynningu á.
– Styðja við og styrkja lærdómssamfélagið sem þegar hefur myndast.
– Festa lærdómssamfélagið um UST á Eyjafjarðasvæðinu í sessi.
Stýrihóp verkefnisins mynda: Bergþóra Þórhallsdóttir sérfræðingur á skóladeild Akureyrarbæjar, Helena
Sigurðardóttir og Margrét Þóra Einarsdóttir kennarar í Brekkuskóla Akureyri, Ingileif Ástvaldsdóttir skólastjóri Þelamerkurskóla Hörgársveit, Hans Rúnar Snorrason kennari Hrafnagilsskóla í Eyjafjarðarsveit og Katrín Fjóla Guðmundsdóttir deildarstjóri í Dalvíkurskóla.
Stýrihópur skipuleggur dagskrá og auglýsir menntabúðirnar með rafrænum hætti.
Fyrir hverjar menntabúðir er þema valið eða aldursstig sem sérstaklega er fókusað á. Menntabúðirnar eru einnig kjörinn vettvangur fyrir kennara af mismunandi skólastigum til að bera saman bækur sínar.
Þó svo áðurnefndir skólar haldi utan um dagskrá og skipulag lærdómssamfélagsins sem hefur myndast, þá er öllum skólum á Eyjafjarðarsvæðinu og nágrenni boðið að senda fulltrúa sína á menntabúðirnar hverju sinni.
Verkefnið tekur mið af Aðalnámskrá grunnskóla (2013), endurmenntunaráætlunum samstarfsskólanna og skólastefnu sveitarfélaga á Eyjafjarðarsvæðinu.
Áætlun um menntabúðir í Eyjafirði er sem hér segir:
Hrafnagilsskóli – september 2015 – lokið
Dalvíkurskóli – október 2015 – lokið
Þelamerkurskóli – nóvember 2015 – lokið
Brekkuskóli – janúar 2016 – lokið
Menntaskólinn á Akureyri – 18. febrúar 2016
Dalvíkurskóli – mars 2016
Þelamerkurskóli – apríl 2016
Brekkuskóli – maí 2016 (uppgjör og ávinningur metinn af samstarfinu)
Lærdómssamfélag – hvað er það?
Skólastarf er síbreytilegt og lifandi þar sem mismunandi ytri og innri þættir hafa áhrif á nám og starf starfsmanna og
nemenda og þróun skóla sem stofnana. Sýnt hefur verið fram á að árangursrík og fagleg starfsþróun byggist á styðjandi og leiðsegjandi vinnubrögðum eins og samvinnu og samræðu, rýni í eigið starf og skýrum markmiðum og viðmiðum um árangur. Menning sem styður og viðheldur slíkum starfsháttum getur falist í því sem kallað er lærdómssamfélag (e. professioanal learning community).
Ef nám er lykilhugtak í skólastarfi mætti líta á lærdómssamfélag (professional learning community) sem yfirhugtak eða umgjörð til að efla nám í skólanum. Til staðar er lærdómssamfélag þegar samhugur er innan stofnunar eða skóla um það að byggja stöðugt upp nýja þekkingu og nýta hana á vettvangi. Þar vinnur fólk náið saman út frá mótaðri námssýn sem allir skilja á sama hátt. Allt starfsfólk hefur miklar væntingar til nemenda og ber sameiginlega ábyrgð á námi þeirra en einnig hvað á annars námi. Það rannsakar starf sitt og ígrundar það í þeim tilgangi að efla það og stuðla að auknum námsárangri hjá nemendum.
Lærdómssamfélag er samfélag með menningu sem leggur megin áherslu á að fólk læri að:
- – Finna hvað það raunverulega vill.
- – Greina hvað hindri það í að uppfylla þá ósk.
- – Hlusta á hvað aðrir vilja og finna sameiginlega fleti sem skýra framtíðarsýn hópsins og læri að sjá kosti þess að læra saman.
- – Skapa aðstæður í sameiningu.
Innan lærdómsmenningar þarf að ríkja umhverfi trausts, heiðarleika og samvinnu sem hvetur til og skapar frjóan jarðveg fyrir, sköpun og miðlun þekkingar, því fólk vill frekar skapa og deila þekkingu með þeim sem það treystir og er vel við en hið gagnstæða. Lærdómsmenning þarf mjög frjósamt umhverfi til að festa rætur og sprettur því fyrst hjá litlum hópum með skýra sameiginlega sýn um hvað það vill skapa, brennandi áhuga að gera hana að veruleika og bjargfasta trú um að geta það. Slíkir hópar leysa úr læðingi svo mikinn sköpunarkraft og áhuga að það smitar út frá sér og þegar aðrir fara að sjá kosti lærdómsmenningar breiðir hún úr sér um þær skipulagsheildir og samfélög sem hún hefur fest rætur í.
f.h. stýrihópsins
Bergþóra Þórhallsdóttir