Útvarp GSnb 12.-15. des.
Þetta er í annað sinn sem GSnb heldur úti útvarpi í aðdraganda jóla. Við sendum út á tíðninni 103,5 frá þriðjudeginum 12.12. til föstudagsins 15.12. Hægt er að hlusta á útvarpið á netinu eða snjalltækinu á slóðinni http://spilarinn.is/#GSNB
Í 1.-7. bekk vinna nemendur bekkjarþættir og eru þeir teknir upp áður. Nemendur í 8.-10. bekk vinna útvarpshandrit í íslensku tímum og skila til kennara, þeir ráða síðan hvort þeir fara með þættina í útvarpið sem margir gera. Við bjóðum líka fleirum í samfélaginu að taka þátt, t.d. hafa einstaka starfsmenn verið með þætti, fyrrverandi nemendur, leikskólinn og Smiðjan sem er dagþjónusta og vinnustofa fyrir fatlaða einstaklinga með skerta starfsgetu. Það eru allir velkomnir að vera með þætti.
Til þess að útvarpið verði að veruleika þarf margt að smella saman. Undirbúningur þarf að vera góður, upptökur og handritagerð þarf að vanda. Ávinningurinn fyrir nemendur er margvíslegur, hæfileikar sem alla jafna eru ekki þjálfaðir fá notið sín, s.s. framsögn, samning handrita og tæknimenn fá tækifæri til að læra á nýja tækni.
Hugmyndin að jólaútvarpinu er fengin úr Grunnskólanum í Borgarnesi og hafa þeir staðið fyrir útvarpi í 25 ár, sjá nánar: http://skolathraedir.is/2016/12/10/utvarp-odal-1013-jolautvarp-nemenda-i-grunnskolanum-i-borgarnesi/. Sigurþór Kristjánsson, Sissi hefur haldið utan um útvarpið til fjölda ára og var hann tæknilegur ráðunautur í þessari vinnu okkar í GSnb. Hann kom í heimsóknir, hitti nemendur og fundaði með nemendaráðinu og starfsfólki.
Það er von okkar að þetta framtak verði árviss viðburður í aðdragandi jóla.
Eftirfarandi er slóð á frétt í Skessuhorni: https://skessuhorn.is/2017/12/13/jolautvarp-gsnb-omar-vikunni/
Hugrún Elísdóttir,
Verkefnastjóri Grunnskóla Snæfellsbæjar.