Múkk og múður menntabúðir

Fimmtudaginn 6. febrúar og þriðjudaginn 25. febrúar kl. 16-18 verða haldnar menntabúðir í stofu H-207 í aðalbyggingu Menntavísindasviðs Háskóla Íslands við Stakkahlíð. (Smelltu á dagsetningu til að skrá þig). Fyrir áramót voru haldnar þrennar menntabúðir sem mæltust mjög vel fyrir og var þátttaka góð. Þátttakendur komu víða að og eru dæmi um að nokkrir lögðu á sig allt að tveggja klukkustunda ferðalag. (Sjá smore auglýsingu)

Menntabúðir er samkoma þar sem fólk kemur saman til þess að miðla af eigin reynslu og þekkingu og afla sér fróðleiks frá öðrum þátttakendum. Þær eru ætlaðar starfandi kennurum á öllum skólastigum og fyrir kennaranema. Þátttakendur fá staðfesta viðurkenningu á endurmenntun frá Starfsþróun Menntavísindastofnunar HÍ. Þátttaka er ókeypis en gert er ráð fyrir virkri þátttöku.

Mikil vakning er í tengslum við fjarnám, vefnám, spjaldtölvur, innleiðingu nýrrar aðalnámskrár svo eitthvað sé nefnt. Fjölmörg áhugaverð þróunarverkefni eru í gangi úti í skólunum sem vert er að fylgjast með. Áhersla verður lögð á tengslamyndun fólks sem er að þreifa sig áfram með nýtingu nýrrar tækni og miðla í skólastarfi.

Meginmarkmið menntabúða er að:
a) skapa jafningjaumhverfi þar sem miðlun þekkingar og reynslu á sér stað
b) veita þátttakendum tækifæri til að læra og prófa sig áfram með ýmis áhugaverð viðfangsefni
c) stuðla að tengslamyndun og samvinnu fólks sem er að þreifa sig áfram með nýtingu nýrrar tækni og miðla í skólastarfi.

Eins og fyrirsögnin gefur til kynna verður aðaláhersla þessara menntabúða MOOC (sjá umfjöllun um MOOC námskeið) og Moodle (sjá umfjöllun um Moodle) en að sjálfsögðu er opið fyrir önnur framlög. Nauðsynlegt er að skrá þátttöku í hvert skipti til að auðvelda utanumhald og skipulagningu. Smelltu á dagsetningarnar hér fyrir ofan til að skrá þig.

Fyrirkomulag:
Þátttakendur eru beðnir að koma með framlag í búðirnar en ekki er ætlast til að allir komi með innlegg. Framlög geta verið margbreytileg, t.d. að segja frá kennsluhugmynd, vefsíðu, forriti, smáforriti, námsskrárvinnu, eða að varpa fram spurningum. Tryggt verður að nóg áhugavert efni verði til reiðu. Þátttakendur eru hvattir til að koma með fartæki (fartölvu, spjaldtölvu, snjallsíma,…) með sér og hægt verður að tengjast neti.

Samstarfsaðilar menntabúða:
UT-torg og Menntamiðja
Fagaðilar og framhaldsnemar í upplýsingatækni og miðlun
Rannsóknarstofa í upplýsingatækni og miðlun (RANNUM)
Menntasmiðja

mukk_og_mudur
eTwinning – rafrænt skólasamfélag í Evrópu

1. Hvað er eTwinning?
2. Skráning og upplýsingar
3. Hvað fæst við skráningu?
4. Hvernig eru eTwinning verkefni?
5. Endurmenntun: frí netnámskeið og vinnustofur í Evrópu
6. Stuðningur við þátttakendur

1. Hvað er eTwinning?
eTwinning er aðgengilegur vettvangur þar sem hægt er að komast í samband við evrópska kollega, taka þátt í einföldum samstarfsverkefnum, sækja sér endurmenntun, ofl. eTwinning var hleypt af stokkunum árið 2005 og er hluti af menntaáætlun ESB (Erasmus+).

eTwinning er óformlegt: engir umsóknarfrestir eða skýrslur og (næstum) engar reglur. Þetta endurspeglast í einkunnarorðunum „hafið það lítið og einfalt“ (keep it short and simple—KISS).

Þeir sem geta skráð sig í eTwinning eru kennara og aðrir skólastarfsmenn, t.d. bókasafnsfræðingar og skólastjórnendur. Nemendur taka þátt í gegnum þau eTwinning verkefni sem skólinn er með í gangi.

2. Skráning og upplýsingar
Hver kennari eða skólastarfsmaður skráir sig sem einstaklingur og engin takmörk eru á því hve margir frá sama skóla geta verið með. Skráning einföld og fer fram á Evrópuvef eTwinning:
www.etwinning.net

Landskrifstofa eTwinning, Rannís, heldur einnig úti síðu þar sem leita má upplýsinga og stuðnings:
www.etwinning.is

3. Hvað fæst við skráningu?
Þitt eigið svæði (eTwinning Desktop)

eTw_desktop_bordi

Sem skráður þátttakandi færðu strax aðgang að þínu eigin svæði, eTwinning Desktop. Hér er um félagsvef að ræða þar sem þú getur komist í samband við evrópska kollega, stofnað samstarfsverkefni, skráð þig á frí netnámskeið, tekið þátt í þemahópum og átt í öðrum félagslegum samskiptum.
Íslensk skjámyndbönd um eTwinning Desktop er að finna á www.etwinning.is

Verkvangur fyrir samstarfsverkefni (TwinSpace)

TwinSpace_bordi

Þegar eTwinning verkefni er stofnað er boðið upp á verkvang fyrir samvinnuna, TwinSpace. Þar er hægt að halda utan um verkefnið, skiptast á skjölum, myndum, blogga, spjalla, ofl. TwinSpace er öruggt svæði fyrir nemendur þar sem aðeins aðstandendur verkefnisins hafa aðgang. TwinSpace er aðeins valkostur – ef fólk vill nota önnur vefsvæði til að halda utan um verkefnið er ekkert því til fyrirstöðu.
Íslensk skjámyndbönd um TwinSpace er að finna á www.etwinning.is

4. Hvernig eru eTwinning verkefni?

Samstarfsverkefni eru venjulega stofnuð af tveimur kennurum (eða öðru starfsfólki skóla) frá sitt hvoru landinu sem síðan geta boðið fleirum til þátttöku ef þeir vilja. Undantekningin frá þessu er eTwinning innanlands þar sem verkefnið er stofnað með öðrum, íslenskum skóla (opnað var á þennan möguleika haustið 2014). Lagt er upp með einfaldleikann sb. einkunnarorðin „hafið það lítið og einfalt“. Engar reglur eru um hvernig verkefni eiga að vera – þau geta varað í stuttan eða langan tíma, farið í gang hvenær sem er á skólaárinu og þátttakendur geta verið fleiri eða færri. Einu kröfurnar eru að verkefnið sé hluti af kennslunni, í samræmi við námsskrá og uppeldismarkmið skólans.

Verkefnishugmyndir
Mælt er með því að fólk móti einfalda og skýra hugmynd. Hægt er að skoða tilbúnar verkefnishugmyndir á Evrópuvef eTwinning sem fólk getur nýtt, breytt og bætt að vild. Einnig er hægt að skoða verkefnagallerí.

Farið inn á www.etwinning.net, smellið á Collaborate og skoðið Project Gallery og Project Kits.

Verðlaun og viðurkenningar
Hægt er að sækja um gæðamerki fyrir góð verkefni og taka þátt í verðlaunasamkeppnum bæði hér heima og í Evrópu. Verkefni með íslenskri þátttöku hafa náð góðum árangri í gegnum tíðina. Smelltu hér til að lesa nánar um eTwinning menntabúðir.

5. Endurmenntun: frí netnámskeið og vinnustofur í Evrópu
Eins og minnst er á að ofan getur fólk skráð sig á frí netnámskeið inn á sínu svæði (eTwinning Desktop). Einnig eru í boði styrkir á símenntunarvinnustofur í Evrópu – Landskrifstofan auglýsir þær sem eru í boði hverju sinni á www.etwinning.is

6. Stuðningur við þátttakendur
Kennslumyndbönd
Landskrifstofan er með myndbandarás þar sem hægt er að skoða hagnýt myndbönd um ýmislegt varðandi eTwinning, sjá: www.etwinning.is

eTwinning fulltrúar – kennarar með reynslu af eTwinning
eTwinning fulltrúar eru starfandi kennarar með reynslu af eTwinning sem hægt er að leita til um stuðning og góð ráð. Nánari upplýsingar um fulltrúana er að finna á www.etwinning.is

Landskrifstofan – alltaf hægt að hafa samband
Landskrifstofa eTwinning, Rannís, veitir stuðning og þjónustu endurgjaldslaust – þátttakendum er velkomið að hafa samband um hvað sem er.
Tengiliðir:
Guðmundur Ingi Markússon / gim (hjá) rannis.is / s. 515 5841
Sigríður Vala Vignisdóttir / sigridur.vala.vignisdottir (hjá) rannis.is / s. 515 5843

Rannís, Landskrifstofa eTwinning
Tæknigarði, jarðhæð, Dunhaga 5, 107 Reykjavík
www.etwinning.is
www.etwinning.net

Guðmundur Ingi Markússon.
Menntabúðir 1 – fréttir

Fyrstu menntabúðir vetrarins voru haldnar í dag. Slagorð dagsins voru „Trix, tækni og tengslanet“. Einstaklega var gaman að sjá hversu margir mættu og tóku þátt í þessari velheppnuðu tilraun með okkur.

Svæðinu var skipt upp í 7 stöðvar og voru umfjöllunarefnin af ýmsum toga. Dagskráin gerði ráð fyrir eftirfarandi umfjöllunarefnum: twitter (#menntabudir @ut_torg), Doceri, TouchCast, Turfhunt, Relanpro, PowToon, Vendikennsla, Opið menntaefni, Pinterest, Vefveggspjöld.

Mikið fjör og góðar umræður sköpuðust sem náðu langt út fyrir dagskránna og var almennt mat þátttakenda að búðirnar hefðu tekist vel. Einnig komu fram tillögur um umfjöllunarefni fyrir næstu menntabúðir sem verða haldnar fimmtudaginn 7. nóvember. Skráning er þegar hafin.

Sólveig Jakobsdóttir og Svava Pétursdóttir fjalla um menntabúðirnar á bloggsíðum sínum. Smelltu á nöfnin þeirra til að lesa færslurnar.

Myndirnar hér fyrir neðan voru teknar á menntabúðunum 31. október 2013.
Rafrænt nám í Brekkuskóla

Í Brekkuskóla er unnið þróunarverkefni sem ber yfirskriftina „Rafrænt nám í Brekkuskóla“. Það gengur út á það að þróa aðferðir til að auka fjölbreytni í námi og kennslu með aðstoð tölvu- og upplýsingatækni.

Meginmarkmið með verkefninu er m.a.:

 • Að auka gæði og fjölbreytni í kennsluháttum
 • Að auka þekkingu og efla endurmenntun kennara á sviði upplýsinga- og samskiptatækni
 • Að nýta sjálfvirkni í upplýsinga- og samskiptatækni í skólastarfinu
 • Að efla samstarf um nám nemenda við heimilin
 • Að styðja við einstaklingsmiðaða kennsluhætti
 • Að auka jafnrétti og jafnræði til náms
 • Að bæta árangur í námi
 • Að bæta líðan og áhuga nemenda
 • Að efla sjálfstraust og sjálfstæði nemenda í námi
 • Að hagræða í rekstri skólans
 • Að efla sjálfmat nemenda

Myndaður hefur verið stýrihópur um verkefnið. Stýrihópurinn skiptir verkefninu upp í sex megin viðfangsefni.

 • Námsgreinin upplýsinga- og tölvutækni og skólanámskrá.
  Unnið hefur verið að endurnýjun skólanámskrár í tölvu- og upplýsingatækni fyrir skólastarf Brekkuskóla í hverjum001_3 árgangi þar sem áhersluþættir í upplýsingatækni sem námsgrein kemur fram. Í skólanámskránni er m.a. lagður grunnur  að frumkvæði og nýsköpun nemenda með forritunarkennslu. Nú í vetur er unnið að því að ræða og setja nánar upp árgangamarkmið, ákveða hvaða hugbúnað við notum til kennslunnar, ákveða hvernig við viljum kenna netsamskipti og hvaða áherslur við viljum viðhafa í birtingu verkefna á netinu. Stefnt er að því að ný skólanámskrá í upplýsinga- og tölvutækni við Brekkuskóla verði tekin í notkun skólaárið 2014 – 2015.
 • Skólasamfélagið og aðalnámskrá.
  Teymi kennara greinir niðurstöður skólaþings sem haldið var haustið 2012 með tilliti til markmiða rafræns náms og kennslu í skólanum. Á skólaþingi komu saman aðilar alls staðar að úr skólasamfélaginu til skrafs og ráðagerða. Einnig greinir hópurinn hvaða þættir það eru sem aðalnámskráin gerir kröfu um varðandi lykilhæfni í upplýsinga- og samskiptatækni almennt í skólastarfi. 
 • Rafrænar námsbækur.
  Teymi kennara þjálfar sig í að setja inn og nýta rafrænar kennslubækur í spjaldtölvum, fartölvum og borðtölvum. IMG_3843_3Verkefnið er unnið sem jafningjafræðsla. Fljótlega eftir að þróunarverkefnið fór í gang kom í ljós að tæknin getur hentað ákveðnum nemendum við vinnslu verkefna sem annars er unnin í bókum. Nemendur vinna í tölvum í almennum kennslustundum sem áður höfðu t.d. átt í erfiðleikum með skriflega verkefnavinnu. Tæknin hefur reynst þessum nemendum vel og eru rafrænar kennslubækur nú nýttar í auknum mæli af þeim sem það hentar. 
 • Kennsluhættir.
  Teymi kennara safnar hugmyndum um fjölbreyttar aðferðir og leiðir við kennslu með nýtingu upplýsinga- og samskiptatækni. Nú þegar hafa kennarar verið að prófa sig áfram með myndir og myndskeið í tungumálakennslu, nýtingu kennsluvefa fyrir einstaka námsgreinar, gerð rafbóka o.fl. Þessi verkþáttur er einnig studdur af Nordplus sjóðnum þar sem tveir kennarar eru í samskiptum við nemendur og kennara í Lettlandi og Noregi. Verkefnið nær til næstu þriggja ára og er kærkomin viðbót við þá þróunarvinnu sem þegar er komin af stað meðal kennara skólans. Áhersla er lögð á jafningjafræðslu og fræðslu frá nemendum, sem oftar en ekki eru komnir lengra en kennarar í að nýta sér tæknina. 
 • Rafræn námsgrein.
  Teymi kennara setur upp áætlun, kennslu, mat, greiningu og miðlun námsgreinar eða afmarkaðra verkefna í IMG_3835_3kerfunum InfoMentor og Moodle. Þegar hefur kennari prófað að nýta rafrænt nám í einni námsgrein á meðan hann dvaldi erlendis að sinna öðru verkefni fyrir skólann. Nemendum í elstu bekkjum Brekkuskóla í einni námsgrein gafst þá kostur á að leysa afmörkuð verkefni með rafrænum hætti óháð stað og stund. Í þessu námsumhverfi InfoMentor hefur matrixa sem rammi fyrir námsmat haft greinileg hvetjandi áhrif á nemendur. Matrixan gefur ákveðið gagnsæi á það til hvers er ætlast af nemandanum í tilteknu verkefni og auk þess gefst nemandanum kostur á að gera sjálfsmat. Afrakstur var sendur rafrænt til kennara og skil verkleg skil verkefna fóru fram þegar kennari var kominn til baka.
  Akureyrarbær hefur sett upp miðlægan Moodle aðgang fyrir grunnskólakennara Akureyrarbæjar þar sem kennarar eru í samstarfi milli skóla að þróa kennsluefni, aðferðir og leiðir til að nýta rafrænt nám í skólastarfi grunnskólanna á Akureyri. Þetta samstarf styður við þróun rafræns náms í skólastarfi Brekkuskóla. Sprotasjóður styrkir rafrænt nám og þróun kennsluhátta í Brekkuskóla. 
 • Sérkennsla með UST.
  Teymi sérkennara hittist reglulega í jafningjafræðslu þar sem aðferðir, leiðir og hugbúnaður er prófaður og metinn. Nemendur með sérþarfir fá þannig einstaklingsmiðaða kennslu með aðstoð tölvutækninnar eftir því sem búnaður leyfir. Sérkennarar fengu sérstakan styrk frá Norðurorku til að styðja við einhverf börn með tækni og verður styrkurinn nýttur til tækjakaupa.

Aðgengi og búnaður
Þráðlaus nettenging er forsenda þess að hægt sé að nýta rafræna kennsluhætti í skólastarfinu. Því hefur skólinn ákveðið að opna fyrir þráðlaust nemendanet skólans þar sem nemendum í elstu bekkjum gefst kostur á að fá aðgang fyrir eigin tölvur, spjaldtölvur eða snjallsíma með skriflegu leyfi foreldra. Nemendanetið er síað með þeim hætti að lokað er fyrir ákveðnar síður eða vefsíðugerðir sem taldar eru óæskilegar. Fylgst er með niðurhali á hvern skráðan vélbúnað sem gefið hefur verið leyfi fyrir. Auðvelt er að loka fyrir einstaka vélbúnað ef nemandi verður uppvís að misnotkun.

Skólinn hefur yfir að ráða 14 iPad spjaldtölvum og í skólanum eru tveir Windows Multipoint þjónar í jafnmörgum tölvuverum. Auk þess eru Multipointþjónar sem tengjast tölvum kennara í kennslustofum. Tvær Apple tölvur eru einnig til í skólanum sem nýtast fyrir vinnslu sem gerir meiri kröfur en spjaldtölvur skólans geta sinnt. Þetta eru færanlegar tölvur sem eru nýttar þar sem þörfin er mest hverju sinni.  

Stuðningur, ráðgjöf og endurmenntun
Lögð er áhersla á að kennarar fái fræðslu, stuðning og ráðgjöf við innleiðinguna. Jafningjastuðningur spilar þar stóran sess þar sem kennarar fá tækifæri til að sýna og segja frá því sem þeir eru að prófa á kennarafundum og á örnámskeiðum. Verkefnið fær styrk úr endurmenntunarsjóði grunnskóla.

Bergþóra Þórhallsdóttir, Aðstoðarskólastjóri.