Forritunarkeppni grunnskólanna

Heil og sæl,

Tækniskólinn heldur Forritunarkeppni grunnskólanna 1. apríl 2017. Keppnin er opin öllum grunnskólanemendum sem hafa áhuga á forritun og er þetta í annað skipti sem þessi keppni er haldin.

Til þess að undirbúa keppendur sem best, munu nemendur og kennara Tækniskólans, halda forritunarbúðir laugardaginn 11. mars frá kl. 10:00-16:00 í Vörðuskóla. Forritunarbúðirnar eru góður undirbúningur fyrir forritunarkeppnina og er skráning í forritunarbúðirnar á: www.kodun.is

Enginn kostnaður er við að taka þátt í forritunarbúðunum né forritunarkeppninni. Allar nánari upplýsingar er að finna á www.kodun.is eða hjá undirritaðri.

Hlökkum til að sjá ykkur.

Kær kveðja,
Guðrún Randalín Lárusdóttir
Skólastjóri Upplýsingatækniskólans
grl@tskoli.is / 514 9351




Menntabúðir Forritun – Fréttir

Fimmtudaginn 27. október voru haldnar Menntabúðir og umfjöllunarefnið var forritun og leikjafræði. Rúmlega 30 þátttakendur mættu og tóku virkan þátt sem var samvinnuverkefni UT-torgs, Menntamiðju, Reykjavíkurborgar, RANNUM og Menntavísindasviðs HÍ.

Eftirfarandi kynnigar voru:

  • Gunnar Ingi Magnússon frá RÚV, kynnti Microbit tölvuna og nýja forritunarkennsluvef www.krakkaruv.is/kodinn.
  • Guðrún Randalín Lárusdóttir, skólastjóri Upplýsingatækniskólans og Ólafur Sveinn Jóhannesson, deildarstjóri markaðs- og kynningardeildar Tækniskólans, kynntu Forritunarkeppni grunnskólanna og fyrirhugaðar Forritunarbúðir fyrir kennara (nánar auglýst síðar).
  • Jórunn Pálsdóttir og Sveinn Bjarki Tómasson, kennarar og verkefnastjórar í Melaskóla, kynntu Lego Wedo.
  • Anna María Þorkelsdóttir, verkefnastjóri í Hólabrekkuskóla, kynnti forritunarkennslu í Hólabrekkuskóla en þar er hefst forritunarkennsla í 1. bekk.
  • Tryggvi Thayer, verkefnastjóri Menntamiðju, kynnti tónlistarforritun án kóðunar.
  • Bjarndís Fjóla Jónsdóttir, verkefnastjóri hjá Kennslumiðstöð HÍ, kynnti ýmsar bjargir fyrir kennara um forritun. Sjá sameiginlega Padlet töflu. Taflan er opin og hugmyndin er að við söfnum í sameiningu góðum tenglum og sögum, fordæmum í forritunarkennslu.

Myndirnar hér fyrir neðan voru teknar á Menntabúðunum.




Forritunarbúðir

Mikið líf og fjör var í Vörðuskóla dagana 12. og 13. febrúar sl., er þar voru haldnar forritunarbúðir fyrir grunnskólanemendur allstaðar af landinu. Búðirnar voru liður í undirbúningi fyrir Forritunarkeppni grunnskólanna, sem fer fram 1. og 2. apríl nk.

Umgjörð og utanumhald búðanna var í alla staði  óaðfinnanlegt og andrúmsloftið einkenndist af léttleika sem endurspeglaðist í góðu skipulagi frá hendi starfsfólks og nemenda Tækniskólans. Nemendur tölvubrautarinnar sáu um fræðsluna, voru mjög vel undirbúin og stóðu sig með mikilli prýði.

Grunnskólanemendum var skipt í nokkrar stofur eftir aldri, getu og áhuga. Einstaklega var gaman að sjá hvað þeir voru fljótir að læra og náðu að leysa skemmtileg og fjölbreytt verkefni. Áhersla var lögð á grundvallaratriði forritunar eins og gagnatýpur og breytur, reiknivirkja, virkja og skilyrðissetningar, lykkjur, klasa, fylki og strengi sem fylki.

Forkeppnin er hafin og stendur yfir frá 22.-28. febrúar. Niðurstöður hennar verða nýttar til að skipta nemendum upp í deildir. Við fögnum þessu frábæra framtaki Tækniskólans og það verður spennandi að fylgjast með áframhaldinu.

Bjarndís og Rakel.

Myndirnar hér fyrir neðan voru teknar í Forritunarbúðunum.




Forritunarkeppni grunnskólanna

Kennarar og nemendur Tækniskólans standa að baki Forritunarkeppni grunnskólanna

Tækniskólinn, skóli atvinnulífsins, mun halda Forritunarkeppni grunnskólanna 1.–2. apríl næstkomandi. Hugmyndin af keppninni er sprottin frá kennurum á tölvubraut og koma þeir að framkvæmd keppninnar með aðstoð, bæði fyrrum og núverandi, nemenda við skólann. Þess má til gamans geta að nemandi á tölvubraut hannaði og forritaði heimasíðuna og nemandi í grafískri miðlun hannaði logo keppninnar.

Forritunarkeppnin er opin öllum grunnskólanemendum sem hafa áhuga á forritun. Markmið keppninnar er að kynna fyrir grunnskólanemendum forritun og að grunnskólanemendur komi saman og leysi skemmtileg verkefni. Í keppninni mega nemendur vinna í 2.–3. manna hópum ef þeir vilja en mega einnig vinna einir.

Til þess að undirbúa grunnskólanemendur fyrir keppnina mun Tækniskólinn standa fyrir forritunarbúðum þeim að kostnaðarlausu. Þar munu nemendur á tölvubraut Upplýsingatækniskólans fara yfir grunnatriði forritunar og er þetta frábær leið til þess að kynnast forritun eða vilja læra meira. Forritunarbúðirnar verða helgina 12.–13. febrúar. Ef nemendur vilja undirbúa sig betur fyrir forritunarbúðirnar eða keppnina sjálfa þá bendum við á youtube síðu keppninnar, þar er að finna bæði fyrirlestra og dæmi.

Allar nánari upplýsingar um Forritunarkeppni grunnskólanna er að finna á heimasíðu keppninnar kodun.is.