Rafrænt nám í Brekkuskóla

image_pdfimage_print

Í Brekkuskóla er unnið þróunarverkefni sem ber yfirskriftina „Rafrænt nám í Brekkuskóla“. Það gengur út á það að þróa aðferðir til að auka fjölbreytni í námi og kennslu með aðstoð tölvu- og upplýsingatækni.

Meginmarkmið með verkefninu er m.a.:

 • Að auka gæði og fjölbreytni í kennsluháttum
 • Að auka þekkingu og efla endurmenntun kennara á sviði upplýsinga- og samskiptatækni
 • Að nýta sjálfvirkni í upplýsinga- og samskiptatækni í skólastarfinu
 • Að efla samstarf um nám nemenda við heimilin
 • Að styðja við einstaklingsmiðaða kennsluhætti
 • Að auka jafnrétti og jafnræði til náms
 • Að bæta árangur í námi
 • Að bæta líðan og áhuga nemenda
 • Að efla sjálfstraust og sjálfstæði nemenda í námi
 • Að hagræða í rekstri skólans
 • Að efla sjálfmat nemenda

Myndaður hefur verið stýrihópur um verkefnið. Stýrihópurinn skiptir verkefninu upp í sex megin viðfangsefni.

 • Námsgreinin upplýsinga- og tölvutækni og skólanámskrá.
  Unnið hefur verið að endurnýjun skólanámskrár í tölvu- og upplýsingatækni fyrir skólastarf Brekkuskóla í hverjum001_3 árgangi þar sem áhersluþættir í upplýsingatækni sem námsgrein kemur fram. Í skólanámskránni er m.a. lagður grunnur  að frumkvæði og nýsköpun nemenda með forritunarkennslu. Nú í vetur er unnið að því að ræða og setja nánar upp árgangamarkmið, ákveða hvaða hugbúnað við notum til kennslunnar, ákveða hvernig við viljum kenna netsamskipti og hvaða áherslur við viljum viðhafa í birtingu verkefna á netinu. Stefnt er að því að ný skólanámskrá í upplýsinga- og tölvutækni við Brekkuskóla verði tekin í notkun skólaárið 2014 – 2015.
 • Skólasamfélagið og aðalnámskrá.
  Teymi kennara greinir niðurstöður skólaþings sem haldið var haustið 2012 með tilliti til markmiða rafræns náms og kennslu í skólanum. Á skólaþingi komu saman aðilar alls staðar að úr skólasamfélaginu til skrafs og ráðagerða. Einnig greinir hópurinn hvaða þættir það eru sem aðalnámskráin gerir kröfu um varðandi lykilhæfni í upplýsinga- og samskiptatækni almennt í skólastarfi. 
 • Rafrænar námsbækur.
  Teymi kennara þjálfar sig í að setja inn og nýta rafrænar kennslubækur í spjaldtölvum, fartölvum og borðtölvum. IMG_3843_3Verkefnið er unnið sem jafningjafræðsla. Fljótlega eftir að þróunarverkefnið fór í gang kom í ljós að tæknin getur hentað ákveðnum nemendum við vinnslu verkefna sem annars er unnin í bókum. Nemendur vinna í tölvum í almennum kennslustundum sem áður höfðu t.d. átt í erfiðleikum með skriflega verkefnavinnu. Tæknin hefur reynst þessum nemendum vel og eru rafrænar kennslubækur nú nýttar í auknum mæli af þeim sem það hentar. 
 • Kennsluhættir.
  Teymi kennara safnar hugmyndum um fjölbreyttar aðferðir og leiðir við kennslu með nýtingu upplýsinga- og samskiptatækni. Nú þegar hafa kennarar verið að prófa sig áfram með myndir og myndskeið í tungumálakennslu, nýtingu kennsluvefa fyrir einstaka námsgreinar, gerð rafbóka o.fl. Þessi verkþáttur er einnig studdur af Nordplus sjóðnum þar sem tveir kennarar eru í samskiptum við nemendur og kennara í Lettlandi og Noregi. Verkefnið nær til næstu þriggja ára og er kærkomin viðbót við þá þróunarvinnu sem þegar er komin af stað meðal kennara skólans. Áhersla er lögð á jafningjafræðslu og fræðslu frá nemendum, sem oftar en ekki eru komnir lengra en kennarar í að nýta sér tæknina. 
 • Rafræn námsgrein.
  Teymi kennara setur upp áætlun, kennslu, mat, greiningu og miðlun námsgreinar eða afmarkaðra verkefna í IMG_3835_3kerfunum InfoMentor og Moodle. Þegar hefur kennari prófað að nýta rafrænt nám í einni námsgrein á meðan hann dvaldi erlendis að sinna öðru verkefni fyrir skólann. Nemendum í elstu bekkjum Brekkuskóla í einni námsgrein gafst þá kostur á að leysa afmörkuð verkefni með rafrænum hætti óháð stað og stund. Í þessu námsumhverfi InfoMentor hefur matrixa sem rammi fyrir námsmat haft greinileg hvetjandi áhrif á nemendur. Matrixan gefur ákveðið gagnsæi á það til hvers er ætlast af nemandanum í tilteknu verkefni og auk þess gefst nemandanum kostur á að gera sjálfsmat. Afrakstur var sendur rafrænt til kennara og skil verkleg skil verkefna fóru fram þegar kennari var kominn til baka.
  Akureyrarbær hefur sett upp miðlægan Moodle aðgang fyrir grunnskólakennara Akureyrarbæjar þar sem kennarar eru í samstarfi milli skóla að þróa kennsluefni, aðferðir og leiðir til að nýta rafrænt nám í skólastarfi grunnskólanna á Akureyri. Þetta samstarf styður við þróun rafræns náms í skólastarfi Brekkuskóla. Sprotasjóður styrkir rafrænt nám og þróun kennsluhátta í Brekkuskóla. 
 • Sérkennsla með UST.
  Teymi sérkennara hittist reglulega í jafningjafræðslu þar sem aðferðir, leiðir og hugbúnaður er prófaður og metinn. Nemendur með sérþarfir fá þannig einstaklingsmiðaða kennslu með aðstoð tölvutækninnar eftir því sem búnaður leyfir. Sérkennarar fengu sérstakan styrk frá Norðurorku til að styðja við einhverf börn með tækni og verður styrkurinn nýttur til tækjakaupa.

Aðgengi og búnaður
Þráðlaus nettenging er forsenda þess að hægt sé að nýta rafræna kennsluhætti í skólastarfinu. Því hefur skólinn ákveðið að opna fyrir þráðlaust nemendanet skólans þar sem nemendum í elstu bekkjum gefst kostur á að fá aðgang fyrir eigin tölvur, spjaldtölvur eða snjallsíma með skriflegu leyfi foreldra. Nemendanetið er síað með þeim hætti að lokað er fyrir ákveðnar síður eða vefsíðugerðir sem taldar eru óæskilegar. Fylgst er með niðurhali á hvern skráðan vélbúnað sem gefið hefur verið leyfi fyrir. Auðvelt er að loka fyrir einstaka vélbúnað ef nemandi verður uppvís að misnotkun.

Skólinn hefur yfir að ráða 14 iPad spjaldtölvum og í skólanum eru tveir Windows Multipoint þjónar í jafnmörgum tölvuverum. Auk þess eru Multipointþjónar sem tengjast tölvum kennara í kennslustofum. Tvær Apple tölvur eru einnig til í skólanum sem nýtast fyrir vinnslu sem gerir meiri kröfur en spjaldtölvur skólans geta sinnt. Þetta eru færanlegar tölvur sem eru nýttar þar sem þörfin er mest hverju sinni.  

Stuðningur, ráðgjöf og endurmenntun
Lögð er áhersla á að kennarar fái fræðslu, stuðning og ráðgjöf við innleiðinguna. Jafningjastuðningur spilar þar stóran sess þar sem kennarar fá tækifæri til að sýna og segja frá því sem þeir eru að prófa á kennarafundum og á örnámskeiðum. Verkefnið fær styrk úr endurmenntunarsjóði grunnskóla.

Bergþóra Þórhallsdóttir, Aðstoðarskólastjóri.

Comments are closed.

Scroll To Top