eTwinning – rafrænt skólasamfélag í Evrópu

image_pdfimage_print

1. Hvað er eTwinning?
2. Skráning og upplýsingar
3. Hvað fæst við skráningu?
4. Hvernig eru eTwinning verkefni?
5. Endurmenntun: frí netnámskeið og vinnustofur í Evrópu
6. Stuðningur við þátttakendur

1. Hvað er eTwinning?
eTwinning er aðgengilegur vettvangur þar sem hægt er að komast í samband við evrópska kollega, taka þátt í einföldum samstarfsverkefnum, sækja sér endurmenntun, ofl. eTwinning var hleypt af stokkunum árið 2005 og er hluti af menntaáætlun ESB (Erasmus+).

eTwinning er óformlegt: engir umsóknarfrestir eða skýrslur og (næstum) engar reglur. Þetta endurspeglast í einkunnarorðunum „hafið það lítið og einfalt“ (keep it short and simple—KISS).

Þeir sem geta skráð sig í eTwinning eru kennara og aðrir skólastarfsmenn, t.d. bókasafnsfræðingar og skólastjórnendur. Nemendur taka þátt í gegnum þau eTwinning verkefni sem skólinn er með í gangi.

2. Skráning og upplýsingar
Hver kennari eða skólastarfsmaður skráir sig sem einstaklingur og engin takmörk eru á því hve margir frá sama skóla geta verið með. Skráning einföld og fer fram á Evrópuvef eTwinning:
www.etwinning.net

Landskrifstofa eTwinning, Rannís, heldur einnig úti síðu þar sem leita má upplýsinga og stuðnings:
www.etwinning.is

3. Hvað fæst við skráningu?
Þitt eigið svæði (eTwinning Desktop)

eTw_desktop_bordi

Sem skráður þátttakandi færðu strax aðgang að þínu eigin svæði, eTwinning Desktop. Hér er um félagsvef að ræða þar sem þú getur komist í samband við evrópska kollega, stofnað samstarfsverkefni, skráð þig á frí netnámskeið, tekið þátt í þemahópum og átt í öðrum félagslegum samskiptum.
Íslensk skjámyndbönd um eTwinning Desktop er að finna á www.etwinning.is

Verkvangur fyrir samstarfsverkefni (TwinSpace)

TwinSpace_bordi

Þegar eTwinning verkefni er stofnað er boðið upp á verkvang fyrir samvinnuna, TwinSpace. Þar er hægt að halda utan um verkefnið, skiptast á skjölum, myndum, blogga, spjalla, ofl. TwinSpace er öruggt svæði fyrir nemendur þar sem aðeins aðstandendur verkefnisins hafa aðgang. TwinSpace er aðeins valkostur – ef fólk vill nota önnur vefsvæði til að halda utan um verkefnið er ekkert því til fyrirstöðu.
Íslensk skjámyndbönd um TwinSpace er að finna á www.etwinning.is

4. Hvernig eru eTwinning verkefni?

Samstarfsverkefni eru venjulega stofnuð af tveimur kennurum (eða öðru starfsfólki skóla) frá sitt hvoru landinu sem síðan geta boðið fleirum til þátttöku ef þeir vilja. Undantekningin frá þessu er eTwinning innanlands þar sem verkefnið er stofnað með öðrum, íslenskum skóla (opnað var á þennan möguleika haustið 2014). Lagt er upp með einfaldleikann sb. einkunnarorðin „hafið það lítið og einfalt“. Engar reglur eru um hvernig verkefni eiga að vera – þau geta varað í stuttan eða langan tíma, farið í gang hvenær sem er á skólaárinu og þátttakendur geta verið fleiri eða færri. Einu kröfurnar eru að verkefnið sé hluti af kennslunni, í samræmi við námsskrá og uppeldismarkmið skólans.

Verkefnishugmyndir
Mælt er með því að fólk móti einfalda og skýra hugmynd. Hægt er að skoða tilbúnar verkefnishugmyndir á Evrópuvef eTwinning sem fólk getur nýtt, breytt og bætt að vild. Einnig er hægt að skoða verkefnagallerí.

Farið inn á www.etwinning.net, smellið á Collaborate og skoðið Project Gallery og Project Kits.

Verðlaun og viðurkenningar
Hægt er að sækja um gæðamerki fyrir góð verkefni og taka þátt í verðlaunasamkeppnum bæði hér heima og í Evrópu. Verkefni með íslenskri þátttöku hafa náð góðum árangri í gegnum tíðina. Smelltu hér til að lesa nánar um eTwinning menntabúðir.

5. Endurmenntun: frí netnámskeið og vinnustofur í Evrópu
Eins og minnst er á að ofan getur fólk skráð sig á frí netnámskeið inn á sínu svæði (eTwinning Desktop). Einnig eru í boði styrkir á símenntunarvinnustofur í Evrópu – Landskrifstofan auglýsir þær sem eru í boði hverju sinni á www.etwinning.is

6. Stuðningur við þátttakendur
Kennslumyndbönd
Landskrifstofan er með myndbandarás þar sem hægt er að skoða hagnýt myndbönd um ýmislegt varðandi eTwinning, sjá: www.etwinning.is

eTwinning fulltrúar – kennarar með reynslu af eTwinning
eTwinning fulltrúar eru starfandi kennarar með reynslu af eTwinning sem hægt er að leita til um stuðning og góð ráð. Nánari upplýsingar um fulltrúana er að finna á www.etwinning.is

Landskrifstofan – alltaf hægt að hafa samband
Landskrifstofa eTwinning, Rannís, veitir stuðning og þjónustu endurgjaldslaust – þátttakendum er velkomið að hafa samband um hvað sem er.
Tengiliðir:
Guðmundur Ingi Markússon / gim (hjá) rannis.is / s. 515 5841
Sigríður Vala Vignisdóttir / sigridur.vala.vignisdottir (hjá) rannis.is / s. 515 5843

Rannís, Landskrifstofa eTwinning
Tæknigarði, jarðhæð, Dunhaga 5, 107 Reykjavík
www.etwinning.is
www.etwinning.net

Guðmundur Ingi Markússon.

Scroll To Top